Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Breytum og bætum á Bókasafni Garðabæjar

20.07.2018
Breytum og bætum á Bókasafni Garðabæjar

Breytum og bætum á Bókasafni Garðabæjar

Aðalsafn Bókasafns Garðabæjar er staðsett á Garðatorgi 7. Bókasafn Garðabæjar hefur það að leiðarljósi að standa jafnfætis bestu almenningsbókasöfnum á landinu hvað varðar safnkost, búnað og þjónustu. Bókasafnið er upplýsinga- og menningarstofnun sem starfar í samræmi við gildandi lög um almenningsbókasöfn og leggur metnað sinn að starfa með fólkinu og þjónusta alla.
Nú stendur starfsfólk safnsins á haus við umbætur á bókasafninu á Garðatorgi. Við erum að fá hjól undir flestar hillur og það getur haft áhrif á uppröðun safnefnis. Það þarf að tæma hillur og setja bækur í kassa svo iðnaðarmenn geti tekið hillurnar niður og sett hjólin góðu undir þær. Við völdum að loka ekki vegna þessara breytinga og biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta tilstand kann að valda. Endilega komið við og kíkið á framkvæmdir. Gestir safnsins geta hjálpað til og komið og fengið sem mest að láni til að geyma fyrir okkur heima. Einnig ef þið hafið einhverjar tillögur að breytingum eða bókakaupum þá erum við alltaf tilbúin til skrafs og ráðagerða með gestum okkar og tökum öllum tillögum fagnandi.
Bókasafnið á Garðatorgi er opið á milli klukkan 9 og 19 alla virka daga í sumar. 1.september bætist laugardagsopnunin við. Álftanessafn er með sumaropnun til 15.ágúst á milli klukkan 16 og 19 mánudaga til fimmtudaga. Hefðbundin vetraropnun tekur svo við 16.ágúst.
Verið hjartanlega velkomin til okkar. Bókasafnið er fullt hús bóka, tímarita, diska, viðburða, gleði og hamingju.
Til baka
English
Hafðu samband