Anna Ólafsdóttir Björnsson er listamaður janúarmánaðar - móttaka föstudaginn 10.janúar
03.01.2020
Anna Ólafsdóttir Björnsson sýnir í Bókasafni Garðabæjar – móttaka 10.janúar á milli klukkan 16-18
Anna Ólafsdóttir Björnsson er listamaður janúarmánaðar 2020 á Bókasafni Garðabæjar. Anna tekur á móti gestum föstudaginn 10.janúar á milli klukkan 16 og 18 og eru allir velkomnir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson er fædd í Reykjavík 1952. Hún er alin upp við myndlist og varð ung heimagangur í Myndlista- og handíðaskólanum, þar sem móðir hennar stundaði nám. Í MR sótti hún tíma á vegum Listafélagsins hjá Sverri Haraldssyni og þaðan lá leiðin beint í Myndlista- og handíðaskóla Íslands næstu tvo vetur. Hún tók því næst BA-próf í bókmenntum og sagnfræði 1978 frá HÍ og sneri sér að því loknu aftur að myndlistinni samhliða útvarps- og blaðamennsku. Meðfram myndlistinni og annarri vinnu lauk hún meistaranámi í sagnfræði (1985) og tölvunarfræði (2008). Lengst var hún viðloðandi Myndlistarskólann í Reykjavík, m.a. hjá Valgerði Bergsdóttur, Ingólfi Erni Arnarssyni, Hring Jóhannessyni, Sigrúnu Guðmundsdóttur og Helga Þorgils Friðjónssyni. Síðar var hún virk í myndlistarhópum á vegum listafélagsins Dægradvalar á Álftanesi og Myndlistaskóla Kópavogs. Í haust sótti hún vatnslitanámskeið hjá Keith Hornblower. Hún hefur fengist við margt fleira, gegnt þingmennsku fyrir Kvennalistann, sinnt sagnfræðirannsóknum og skrifum og vann við hugbúnaðargerð seinustu 17 ár formlegrar starfsævi.
Anna hélt sína fyrstu einkasýningu í Listamiðstöðinni við Lækjartorg haustið 1984 og hefur síðan haldið fjölmargar smærri einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Þá vann hún veggskreytingu fyrir veitingahúsið Eldvagninn við Laugaveg seint á 9. áratugnum. Hún er ein af stofnfélögum Grósku og hefur tekið þátt í flestum Jónsmessusýningum félagsins og ýmsum öðrum sýningum. Upphaflega einbeitti Anna sér einkum að teikningu og grafík, en fór síðan yfir í olíumálun og blandaða tækni en hefur síðasta árið einkum fengist við vatnslitamálun.
Þess má geta að Anna var bókavörður við Bókasafnið í Garðabæ veturinn 1976-1977.
http://annabjo.simplesite.com/