María Manda er listamaður júnímánaðar í Bókasafni Garðabæjar
María Manda er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar frá 30.maí - 30.júní, í samstarfi við Grósku.
María Manda er fædd í Reykjavík 1960 og er sjálfstætt starfandi umbúðahönnuður og leiðsögumaður. Á sínum yngri árum stundaði hún nám í módelteikningu, postulínsmálun, vatnslitum og olíumálun við ýmsa skóla. Eftir að hafa sinnt hönnunarstörfum eingöngu ákvað hún eftir langt hlé að taka upp pensilinn aftur og sótti námskeið í bæði olíu og vatnslitum hjá ýmsum listkennurum. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum bæði í hönnun og list. Hún er meðlimur í SÍM, Litku og Grósku myndlistarfélögum. Verkin hennar eru í einkaeigu bæði hér heima og erlendis og í opinberri eigu.
Heiti sýningarinnar er Mardi Gras plús. Mardi Gras er einskonar kjötkveðjuhátíð sem haldin er árlega í New Orleans í Bandaríkjunum. Þúsundir manna taka þátt í skrúðgöngum, klæðast búningum og grímum. Fjólubláar, grænar og gull litaðar perluhálsfestar eru einkennandi fyrir hátíðina. Litirnir tákna réttlæti, trúarbrögð og völd. Verkin á þessari sýningu eru innblásin af þessum búningum og merkingum litanna sem rista djúpt inn í myndbygginguna.
Þar sem sýningin átti að standa í apríl en vegna aðstæðna var safninu lokað fór opnun sýningarinnar fram með vido-verki sem finna má á heimasíðu listamanns eða á Youtube: Mardi Gras Maria Manda.
Margir hafa því séð verkin á netinu svo María ákvað að bæta við nýjum verkum á þessa sýningu. Þar af leiðandi eru þetta tvær ólíkar sýningar í einni og plúsinn bættist við nafnið.
Verið innilega velkomin.