ALLIR VELKOMNIR Í BÓKASAFN GARÐABÆJAR!
Bókasafn Garðabæjar er almenningsbókasafn sem er öllum opið. Bókasafnið heyrir undir menningar- og safnanefnd Garðabæjar. Bókasafnið er á tveimur stöðum; aðalsafn á Garðatorgi 7 og Álftanessafn sem er rekið með skólasafni Álftanesskóla við Eyvindarstaðaveg. Álftanessafn hóf rekstur árið 1956.
Bókasafnið er upplýsinga- og menningarmiðstöð sem veitir aðgang að fjölbreyttum bókakosti, gögnum og miðlum til fræðslu og afþreyingar í þeim tilgangi að örva lestraráhuga og styðja við menningarlíf samfélagsins. Starfsfólk safnsins er ætíð reiðubúið til að veita aðstoð. Gestir fá aðgang að tölvum á aðalsafni og þráðlausu neti á öllum söfnum. Gestir fá aðgang að prentara, ljósritun, vínylprentara, þrívíddarprentara og saumavél á Garðatorgi. Safnefni er lánað heim.
Hlutverk bókasafnsins er meðal annars að veita aðgang að fjölbreyttum bókakosti og rafrænum miðlum til fræðslu og afþreyingar. Þá er safninu ætlað að efla íslenska tungu, stuðla að símenntun og síðast en ekki síst styðja við atvinnu- og menningarlíf í Garðabæ ásamt því að safna gögnum um sögu Garðabæjar.
Lesstofa
Bókasafn Garðabæjar býður upp á lesaðstöðu á 2. hæð safnsins. Þar eru nokkrir lesbásar og hópvinnuborð. Boðið er upp á þráðlaust net og nóg er af innstungum fyrir fartölvur. Ekki er alltaf hægt að lofa algjörri þögn á lesstofunni þar sem það kemur fyrir að verið er að undirbúa viðburði á safninu.