Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Langir fimmtudagar - Jólabókaspjall bókasafnsins kl. 19.30

13.11.2025 19:30

13. nóvember klukkan 19.30 – Jólabókaspjallið

Rithöfundar ársins eru þau Sigríður Hagalín, Lilja Sigurðardóttir og Hrannar Bragi Friðriksson. Brynhildur Björnsdóttir stýrir spjallinu.
Umræður, léttar veitingar, huggulegheit og jólaljós.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir les úr bók sinni Vegur allrar veraldar - skálkasaga, sem er sjálfstætt framhald Hamingju þessa heims - riddarasaga (2022), þar sem koma við sögu Ólöf ríka og aðrar magnaðar persónur og atburðir 15. aldar; aldarinnar sem gleymdist í Íslandssögunni. Einnig var kvikmyndin Eldarnir – ástin og aðrar hamfarir sem er byggð á samnefndri skáldsögu Sigríðar að hefja sýningar í kvikmyndahúsum landsins og hefur fengið góða dóma.

Lilja Sigurðardóttir les úr bók sinni Ɐlfa. Árið 2052 ríkir friður og velsæld. Í 25 ár hefur Ɐlfa stýrt samfélaginu – gervigreind sem nýtir sér
gríðarlegt gagnamagn til að leysa úr öllum málum á sem bestan hátt fyrir alla.
Á heimili Sabínu og Mekkínar er stór dagur runninn upp. Júlíus sonur þeirra er að verða sextán
ára og Þá fær hann grædda í sig örflögu til að tengjast Ɐlfa beint eins og aðrir, og eins fær hann að vita hvað honum er ætlað að fást við í framtíðinni, ákvörðun sem Ɐlfa byggir á ítarlegum upplýsingum um hæfni hans og eiginleika. En þegar Birkir, bróðir Sabínu, drukknar við undarlegar aðstæður er ljóst að allt er ekki eins og það sýnist.
Hrannar Bragi Eyjólfsson les úr bók sinni Séra Bragi: Ævisaga. Í þessari ríkulega myndskreyttu ævisögu er rakin ótrúleg ævi Séra Braga Friðrikssonar brautryðjandans sem vígðist fyrstur íslenskra presta til þjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada, lagði grunn að æskulýðsstarfi Reykjavíkur og Þjóðkirkjunnar. Séra Bragi stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna, æskulýðs- og skátafélög og var á meðal þeirra sem byggði samfélag frá grunni í Garðabæ. Hann var kallaður „faðir Garðabæjar“ og var útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins.

 


Dagskrá - langir fimmtudagar í nóvember

20. nóvember klukkan 19-21. Málað og masað (Sip and paint) – Jólaföndur fyrir fullorðna. Málum saman til falleg vínglös, allt efni á staðnum og léttar veitingar í boði bókasafnsins. 20 ára aldurstakmark og skráning nauðsynleg á netfangið: asbjorgbj@gardabaer.is.

27. nóvember klukkan 19. „Spil og einn kertapakki“ - Jólin árið 1919 í þriggja bursta torfbæ.
Björk Bjarnadóttir umhverfis-þjóðfræðingur og sagnaþula mun skyggnast með gestum sagnastundarinnar inn í litla þriggja bursta torfbæinn á Smyrlabergi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu árið 1919, þar sem tólf manna fjölskylda býr. Börnin eru tíu, öll miklir vinir. Á bænum eru einnig kindur, kýr og hestar.

Við fáum að fræðast um lífið í torfbænum litla og sérstök áhersla verður lögð á jólin hjá þessari stóru en fátæku fjölskyldu. Eitt af systkinunum tíu var afi Bjarkar, Páll Stefánsson (1912-1982), og hún ólst upp við að heyra afar merkilegar sögur af lífinu í torfbænum sem hún mun deila með gestum sagnastundarinnar. Sagnastundin er einnig byggð upp á þremur viðtölum sem Björk tók við afa systur sína, Helgu Stefánsdóttur (1910-2008) árið 1996, þar sem Björk skráði niður hjá henni frásagnir af daglegu lífi á Smyrlabergi.

Þegar mánuður er til jóla og flest okkar komin með nóg á dagskrána, þá er gott að staldra við og koma á Bókasafn Garðabæjar og hlýða á hvernig jólagjöfin: spil og einn kertapakki með uppsnúnum kertum gaf mikla jólagleði í hjörtu og huga tíu barna.

Hlökkum til að sjá ykkur, öll velkomin.

Til baka
English
Hafðu samband