Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýr vefur leitir.is

15.11.2011
Nýr vefur leitir.isNafn vefgáttarinnar leitir.is er sótt til þess viðburðar sem á sér stað á haustin í sveitum landsins er bændur halda til fjalla og smala saman búpeningi sínum. Þeir fara í leitir. Á vefnum leitir.is fara menn einnig í leitir og smala saman upplýsingum. Það er margt sem þar kemur í leitirnar. Förum öll í leitir!

Aðgengi frá einum stað
Leitarvefurinn opnar á nýjan hátt aðgang að ómetanlegum menningarverðmætum sem fólgin eru í söfnum landsins og gera notendum kleift að afla sér margþættra upplýsinga á einum stað Vefurinn mun gagnast notendum við hvers kyns upplýsingaleit sem tengst getur skólagöngu, sérfræðivinnu, rannsóknum eða dægradvöl.

Eftirfarandi gagnasöfn eru nú aðgengileg í gegnum leitarvefinn: 
Gegnir sem er samskrá íslenskra bókasafna
Hvar.is sem er landsaðgangur að erlendum gagnasöfnum og rafrænum tímaritum,
Timarit.is sem veitir aðgang að fjölmörgum dagblöðum og tímaritum sem hafa verið gefin út á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.
Bækur.is sem er stafræn endurgerð gamalla íslenskra bóka
Elib sem er áskrift bókasafns Norræna hússins að rafrænum bókum
Hirsla sem geymir vísinda- og fræðigreinar starfsmanna Landspítala- háskólasjúkrahúss

Myndavefur Ljósmyndasafns Reykjavíkur
sem inniheldur fjölmörg ljósmyndasöfn í eigu safnsins og Skemman sem er safn námsritgerða og rannsóknarita háskólanna.
Fleiri gagnasöfn eiga eftir að bætast við.

Umsjón vefsins
Landskerfi bókasafna hf. er hlutafélag sem ríkið á ásamt 52 sveitarfélögum og hefur það hlutverk að reka sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir bókasöfn á vegum þessara aðila. Fyrirtækið var stofnað 14. nóvember árið 2001. Félagið rekur nú bókasafnskerfið Gegni (gegnir.is) fyrir rúmlega 300 bókasöfn og eru þar á meðal öll stærstu söfn landsins, svo sem Landsbókasafnið, háskólabókasöfnin og Borgarbókasafn Reykjavíkur. Umsjón og rekstur leitir.is er í höndum Landskerfis bókasafna hf. 

Útlit vefsins leitir.is var unnið af Hrafnhildi Jónsdóttur og Tinnu Brá Baldvinsdóttur hjá Hrím Hönnunarhúsi.

Til baka
English
Hafðu samband