Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Gengið um söguslóðir Tónlistarskólans í Garðabæ

19.05.2014
Gengið um söguslóðir Tónlistarskólans í GarðabæLaugardaginn 3. maí sl. var haldið í árlega sögugöngu á vegum Bókasafns Garðabæjar og menningar- og safnanefndar. Að þessu sinni var gangan haldin í samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar í tilefni af 50 ára afmælis skólans. Góður hópur folks á öllum aldri mætti í gönguna sem lagði af stað frá bókasafninu á Garðatorgi í létta göngu um söguslóðir Tónlistarskólans undir leiðsögn Stefáns Kristmannssonar. Gengið var á milli nokkurra staða í bænum þar sem Tónlistarskólinn hefur verið til húsa, þar má nefna Flataskóla, Hraunhóla, Hæðarbyggð og Kirkjulund.

Í Flataskóla var skólasöngur skólans sunginn en hann er eftir Guðmund Norðdahl og var mikið notaður hér áður fyrr. Í Hæðarbyggð tóku fagrir túbutónar á móti gestum og gangandi en þar voru á ferð nemendur Tónlistarskólans. Síðasti áfangastaður sögugöngunnar var Kirkjulundur sem hýsir Tónlistarskóla Garðabæjar. Þar var stutt dagskrá í anddyri skólans og boðið upp á létta hressingu og örtónleika. Litið var inn á æfingu hjá Kvennakór Garðabæjar sem söng þrjú lög og endað á æfingu strengjasveitar skólans sem flutti, ásamt einleikara, 1. þáttinn í gítarkonsert Vivaldi.

Fleiri myndir úr sögugöngunni er hægt að sjá á skemmtilegri fésbókarsíðu bókasafnsins.
Til baka

Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband