Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Könnun á viðhorfi til Bókasafns Garðabæjar

12.09.2016
Könnun á viðhorfi til Bókasafns Garðabæjar

Komdu á Bókasafn Garðabæjar – Þitt bókasafn
Könnun á viðhorfi til Bókasafns Garðabæjar

 

 

 

Starfsfólk Bókasafns Garðabæjar leitar til íbúa bæjarins um að svara stuttri rafrænni könnun um starfsemi safnsins. Markmiðið er að veita sem besta þjónustu, bækur og gögn, viðburði og klúbba sem völ er á.
Hægt er að svara könnuninni á vef bókasafnsins, bokasafn.gardabaer.is, fésbókarsíðu bókasafnsins og á vef Garðabæjar, gardabaer.is. Einnig er hægt að fylla út könnun á pappírsformi á bókasafninu á Garðatorgi og á Álftanesi. Það tekur aðeins um 5-10 mínútur að svara könnuninni og ekki er hægt að rekja svörin til einstaklinga.
Niðurstöður úr könnuninni á að aðstoða okkur við að þróa og byggja upp Bókasafn Garðbæjar í takt við samfélagið og að endurspegla kröfur og væntingar bæjarbúa.
Krækja á könnun: þjónustu- og viðhorfskönnun Bókasafns Garðabæjar

 


Þjónusta
Þjónusta bókasafnsins er fjölbreytt og við viljum halda áfram að þróa hana í takt við óskir safngesta. Safnið varðveitir m.a. gögn um sögu Garðabæjar og stendur fyrir fræðslu- og umræðuhópum eftir óskum og hugðarefnum gesta. Bókasafnið styður við menningarlífið í bænum með tengingu við önnur söfn á því sviði og langar að gera listamönnum Garðabæjar góð skil með því að vekja athygli á verkum þeirra. Stefnt er að því að bjóða upp á tækjabúnað eins og lesbretti til afnota bæði í fræðsluskyni og til afþreyingar.

Lestur er bestur
Mikil umfjöllun hefur verið um dvínandi lestraráhuga og lesskilning ungs fólks. Útlán á bókasöfnum hafa minnkað undanfarin ár víða um heim en að sama skapi hefur gestafjöldi aukist. Bókasafnið hefur brugðist við þessum dvínandi lesskilningi, m. a. með því að hafa laugardaga fyrir fjölskylduna og bjóða þá upp á sögustundir fyrir börnin. Eins býður Bókasafn Garðabæjar upp á sögu- og fræðslufundi fyrir grunnskóla- og leikskólanemendur, allt í þeim tilgangi að efla lestraráhuga. Einnig hefur bókasafnið gert barna- og unglingabókaútgáfunni góð skil bæði með innkaupum og því að setja þessar bækur á áberandi stað í safninu.

Staður fyrir alla
Starfsemi Bókasafns Garðabæjar miðar að því að koma til móts við þarfir gestanna sem birtist í því að bjóða opið almenningsrými fyrir fólk til að hittast, fræðast, skemmta sér, fá innblástur og skapa. Með því kemur bókasafnið á samstarfi og er vettvangur tengslamyndunar og upplifunar. Bókasafnið er einnig virkt á samfélagsmiðlum sem eru hluti af lífi flestra á Íslandi í dag og hvetur Garðbæinga til að fylgjast með fréttum úr starfseminni þar.
Því góða starfi sem fer nú þegar fram á Bókasafni Garðabæjar verður haldið áfram. Um leið viljum við leita enn frekar til almennings með þróun á þjónustu safnsins, með það að markmiði að vera í fararbroddi við þróun nútíma bókasafna.
Margrét Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar

Til baka
English
Hafðu samband