Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Bókaspjall Bókasafns Garðabæjar á Garðatorgi fimmtudaginn 24. nóvember 2016 kl. 20:00 - 21:30

18.11.2016
Bókaspjall Bókasafns Garðabæjar á Garðatorgi fimmtudaginn 24. nóvember 2016 kl. 20:00 - 21:30Rithöfundar á bókaspjalli – Ásdís Halla áritar
Höfundarnir Auður Ava Ólafsdóttir með skáldsöguna Ör, Árni Þórarinsson með spennusöguna 13 dagar og Ásdís Halla Bragadóttir með ævisöguna Tvísaga : móðir, dóttir, feður mæta í bókaspjall á Bóksafni Garðabæjar. Fimmtudaginn 24. nóvember munum við ekki loka safninu klukkan sjö heldur verður afgreiðslan opin til klukkan átta þar til bókaspjallið hefst.
Á milli klukkan sjö og átta býður Ásdís Halla Bragadóttir upp á áritun í bókina sína Tvísaga : móðir, dóttir, feður. Fólk þarf að koma með bókina með sér. Hvetjum við fólk til að nota tækifærið.
Skipulag bókaspjalls
Stjórnandi kvöldsins er Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur. Hún mun fjalla um bækur höfundanna sem og lítilsháttar um aðrar bækur sem eru að koma út. Síðan er upplestur úr bókum viðkomandi höfunda og svo spjall við hvern höfund um bókina. Bókaspjall er í samstarfi Bókasafns Garðabæjar og menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Léttar veitingar í boði.
Af hverju bókaspjall?
Rithöfundakvöld eða bókaspjall eins og við kjósum að kalla þetta í Garðabænum eru vinsælir viðburðir í sveitafélögunum í kringum okkur og því fannst okkur tilvalið að skapa þessa hefð í Garðabænum með von um að Garðbæingar taki vel í þetta. Við fengum mjög góð viðbrögð við könnum bókasafnsins í haust þar sem þátttakendur lýstu yfir áhuga að fá meira af upplestri sem og annari fræðslu. Ekki stendur á okkur í Bókasafni Garðabæjar. Við höfum verið með staka upplestra upp úr barnabókum nú í haust og buðum svo upp á veglegan viðburð á degi íslenskra tungu þar sem skólakór Hofsstaðaskóla tróð upp við góðar undirtektir viðstaddra. Í beinu framhaldi las barnabókahöfundurinn Helga Sv. Helgadóttir upp úr Húsið á heimsenda. Hildur Sif Thorarensen lauk svo dagskránni með því að lesa upp úr nýútkominni spennusögu Einfari.

Til baka
English
Hafðu samband