Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Listamaður í janúar á bókasafni er Kamma Níelsdóttir - opnun sölusýningar laugardaginn 14/1 kl. 13

09.01.2017
Listamaður í janúar á bókasafni er Kamma Níelsdóttir - opnun sölusýningar laugardaginn 14/1 kl. 13Kamma Níelsdóttir er listamaður janúarmánaðar. Sýningin stendur yfir allan janúar og verður formleg opnun laugardaginn 14. janúar klukkan 13. Allir velkomnir. Kamma sérhæfir sig í þæfðri ull og hönnun á ullarvörum. Hún rak í fjölmörg ár Kömmuskóla í Garðabæ sem er listasmiðja þar sem markvisst var leitast við að örva börn til sjálfstæðrar listrænnar sköpunar. Kamma er leikskólakennari að mennt og var m. a. leikskólastjóri leikskólans Kirkjubóls í Garðabæ frá því hann var stofnaður árið 1985 til ársins 2007.
Á undanförnum árum hefur hún sérhæft sig í þæfðri ull. Hún býr til sjöl, slæður, trefla, handstúkur, húfur, hatta, töskur og pils. Þetta eru fallegar og hlýjar flíkur sem gaman er að skreyta sig með.
Hinir frumlegu ullarskúlptúrar sem hún gerir hafa visst nytjagildi, geta verið tehettur eða topphúfur, eftir því hvað fólk sjálft kýs. En tehetturnar og húfurnar minna á eldfjöll, jökla og önnur íslensk björg.
Þetta er vandað íslenskt listhandverk af bestu sort. Efnið sem notast er við, íslensk ull og fiskiroð, gerir það enn þjóðlegra og innblásturinn er sóttur til íslenskrar náttúru.
Kamma er fædd og uppalin í Danmörku þar sem náttúran er mildari og frjósamari en hefur búið í landi elda og ísa meirihluta ævinnar eða 47 ár. Ísland og hin stórbrotna náttúra þess á því sterkari ítök henni (http://www.jordenslys.dk/thaefd-ull; 2017).
Til baka
English
Hafðu samband