Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Lestrarhestar og Dr. Bæk á bókasafninu Garðatorgi 7 laugardaginn 13. maí

04.05.2017
Lestrarhestar og Dr. Bæk á bókasafninu Garðatorgi 7 laugardaginn 13. maí

Opnunarhátíð á bókasafninu Garðatorgi 7 laugardaginn 13. maí
Við byrjum daginn klukkan 11 á því að fá Dr. Bæk til að leiðbeina um helstu vorverk hjólreiðamannsins. Það er pumpað í dekk og smurt. Stillingar á stelli og hjálmi skoðaðar og bremsur og gírar stilltir. Þátttakendur mæta með sín eigin hjól á Garðatorg 7 fyrir framan bókasafnið.
Lesum saman í sumar
Við hefjum skráningu í sumarlestur á Bókasafni Garðabæjar með trukki laugardaginn 13. maí klukkan 13 á Garðatorgi. Við erum búin að fá tvo sérfræðinga til liðs við okkur til að tala um lestur krakka enda viljum við fá krakkana okkar til að lesa allt árið, líka á sumrin. Við fáum rithöfund til að lesa upp úr bókum og ýta sumarlestri úr vör þetta sumarið.

  • Auður Björgvinsdóttir grunnskólakennari og verkefnastjóri í læsi við Álftanesskóla verður með erindi. Auður mun útskrifast með MA gráðu í menntavísindum með áherslu á lestrarfræði í vor. Hún ætlar að fjalla um lesskilning og gagnvirkan lestur. Lesum saman í sumar.
  • Andrea Anna Guðjónsdóttir sérfræðingur hjá Menntamálastofnun ætlar að fjalla um mikilvægi sumarlesturs og hlutverk foreldra.
  • Þórdís Gísladóttir rithöfundur sem er hvað þekktust fyrir bækurnar um Randalín og Munda og Doddi : bók sannleikans sem hún skrifaði með Hildi Knútsdóttur, mun lesa upp úr eigin bókum.

Sumarlestur og hjól
Góð vísa er ekki of oft kveðin og er mikilvægt að æfa lestur alla æfi. Að vera góður í lestri er hið besta veganesti sem hver forráðamaður getur veitt krakkanum þar sem mikil fylgni er á milli þess að ganga vel í fullorðinslífi og góðs lesskilnings frá fyrstu tíð. Því er að miklu að vinna og hvetjum við alla sem koma að uppeldi grunnskólakrakka að koma á Bókasafnið í Garðabæ og skrá þau í sumarlestur og njóta laugardagsins 13. maí með okkur. Dagskrá hefst klukkan 11 með að Dr. Bæk aðstoðar gesti með hjólin, klukkan 13 er fræðsla fyrir forráðamenn og áhugasama og lýkur með upplestri rithöfundar klukkan 14. Það má skrá krakka í allt sumar í sumarlestur – lesum saman í sumar. Dregið verður úr lestrarhesti vikunnar alla föstudaga í sumar.
Takið daginn frá og hjólið í bókasafnið Garðtorgi. Má líka ganga, hlaupa og koma keyrandi. Næg bílastæði austanmegin við bókasafnið og í bílakjallara.

Til baka
English
Hafðu samband