Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rithöfundakvöld þriðjudaginn 20.nóvember klukkan 20 - árlegt spjall við höfunda um nýútkomnar bækur

16.11.2018
Rithöfundakvöld þriðjudaginn 20.nóvember klukkan 20 - árlegt spjall við höfunda um nýútkomnar bækur

Rithöfundakvöld Bókasafns Garðabæjar, Garðatorgi er orðið eitt af föstum liðum í dagskrá safnsins. Það er öllum opið og kostar ekkert.

Við fáum 4 rithöfunda í heimsókn með nýjar bækur:

Bjarni Harðarson með skáldsöguna Í Gullhreppum
Ármann Jakobsson með glæpasöguna Útlagamorðin
Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir með æviminningarnar ...hjá grassins rót
Bubbi Morthens með ljóðabókina Rof: ljóð.

Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur stýrir umræðum. Bókaspjall hefst klukkan 20 og léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Um bækurnar:
Í Gullhreppum eftir Bjarna Harðarson
Hér segir frá þjóðsagnapersónunni séra Þórði í Reykjadal og hinu mikla veldi Skálholtsstaðar á 18. öld. Sagan hefst í Kaupmannahöfn þar sem prestsefnið kemst í kærleika við okurlánara og verður síðar valdur að dauða hans. Þegar heim er komið opnar Reykjadalsprestur hús sín fyrir farandi lýð flækinga og nýtur góðs af á engjaslætti. Hann er sjálfur frábitinn allri vinnu en skoðar veröldina með kátlegu kæruleysi þess sem lætur hverjum degi nægja sína þjáningu. Inni fyrir berst Þórður við trúarlegar efasemdir og forboðnar kenndir sínar til karlmanna.

Útlagamorðin eftir Ármann Jakobsson
Sag­an hefst á því að ung­ur maður sem eng­inn veit hver er finnst látinn í húsag­arði í litl­um bæ sem nefn­ist Reyk­ir. Ný­stofnuð morðrann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar fer þegar á staðinn en er vandi á hönd­um. Bær­inn er full­ur af er­lend­um ferðamönn­um, katt­armorðingi geng­ur laus, þarna er nýopnaður skemmtig­arður, tvær syst­ur virðast ráða öllu sem máli skipt­ir – og ein úr lög­reglu­teym­inu á ekk­ert sér­stak­lega góðar minn­ing­ar úr þess­um smá­bæ.

... hjá grassins rót eftir Hólmfríð K. Gunnarsdóttur
Hólmfríður segir sögur kvenna og annarra kvenna og karla sem koma við hennar eigin sögu. Sjálf rifjar hún upp minningar frá því að hún var barn í norðlenskum dal og framtíðin óskrifað blað. Allir eiga formæður og forfeður sem hvert og eitt á sína sögu. Oft er saga forfeðranna einhvers staðar rakin en saga formæðranna skrifuð í öskuna. Hér segir af fólki sem elskaði og missti, gladdist og hryggðist, tók því sem að höndum bar enda oftast ekki um annað að ræða.

Rof: ljóð eftir Bubba Morthens. Lof er þriðja ljóðabók Bubba Morthens á jafn mörgum árum. Hér horfir Bubbi til æskunnar og yrkir af hugrekki og yfirvegun um atburð sem hafði ómæld áhrif á unga sál; atburð sem settist að í hug og hjarta, varð eilífur óboðinn gestur sem sífellt reif niður sjálfsmyndina og sambönd við annað fólk.
Ljóðin eru í senn mögnuð lýsing á sálrænum afleiðingum misnotkunar og leit að friði og sátt. Ljóðin eru þarft innlegg í umræðu samtímans en þó fyrst og fremst áminning um hve brothætt við erum, öll sem eitt.
Til baka
English
Hafðu samband