Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rithöfundakvöld Álftanessafns kl. 20 og jólaperl kl. 17-19 þriðjudaginn 28.nóvember

27.11.2018
Rithöfundakvöld Álftanessafns kl. 20 og jólaperl kl. 17-19 þriðjudaginn 28.nóvember

Rithöfundakvöld Bókasafns Garðabæjar á Álftanesi er orðið eitt af föstum liðum í dagskrá safnsins. Það er öllum opið og kostar ekkert.

Við fáum 2 rithöfunda í heimsókn með nýjar bækur:

Lilja Sigurðardóttir með spennusöguna Svik
Sigursteinn Másson með ævisöguna Geðveikt með köflum

Sigurður Valgeirsson, bókmenntarýnir stýrir bókaspjallinu. Bókaspjall hefst klukkan 20 og léttar veitingar verða í boði. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Um bækurnar:
Svik eftir Lilju Sigurðardóttur
Úrsúla er nýlega flutt til Íslands eftir áralöng störf á hættusvæðum heimsins. Rólegt hversdagslífið í Reykjavík hentar henni engan veginn, svo að hún grípur fegins hendi óvænt boð um að taka sæti í ríkisstjórn landsins: þar getur hún aftur látið til sín taka!
En stjórnmálin eru refskák og fjölmiðlar vaka yfir hverju fótmáli nýja ráðherrans. Við bætist að gamall útigangsmaður eltir hana á röndum og virðist vilja vara hana við yfirvofandi hættu. Svik er hröð og hörkuspennandi saga um völd og valdaleysi, ofbeldi og þöggun; um að bregðast trausti og svíkja gefin loforð.

Geðveikt með köflum eftir Sigurstein Másson
Geðveikt með köflum er einstæð frásögn Sigursteins Mássonar um lífshlaup sitt þar sem sannarlega hafa skipst á skin og skúrir. Sigursteinn var aðsópsmikill fréttamaður á sínum tíma og lét talsvert að sér kveða í fjölmiðlum. Þá hvarf hann af skjánum og af þjóðlífsvettvangi, en segir nú söguna af þeim hremmingum sem hann gekk í gegnum.
Af mikilli einlægni, hispursleysi en líka af kankvísi fjallar Sigursteinn hér um andleg veikindi sín, hvernig hann sá og heyrði samsæri í hverju horni, um stríðið í Kosóvó þar sem Sigursteinn var einna fyrstur vestrænna fréttamanna á staðinn, Guðmundar og Geirfinnsmálin og þátt þeirra í veikindunum. Geðveikt með köflum er áhrifamikil frásögn samtímamanns um veikindi og tvísýna baráttu um andlega heill og velferð, og hvernig honum tókst, með hjálp góðra manna og kvenna, að ná tökum á geðsjúkdómi sínum.

Jólaperl á milli klukkan 17 og 19 

Álftanessafn býður upp á jólaperl þar sem allir eru velkomnir að koma og perla saman. Nóg er til af jólaperlum og starfsfólk verður með straujárnið á lofti. Allir velkomnir og allt ókeypis. Bara mæta með góða skapið og perla eins og vindurinn. Mögulega mun jólasveinninn lauma einhverju góðgæti í skál

 

 

Til baka
English
Hafðu samband