Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Katrín Matthíasdóttir – listamaður mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar

08.07.2019
Katrín Matthíasdóttir – listamaður mánaðarins á Bókasafni GarðabæjarKatrín Matthíasdóttir – listamaður mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar
Katrín Matthíasdóttir er listamaður júlímánaðar á Bókasafni Garðabæjar í samstarfi Grósku og bókasafnsins. Sýningin er sölusýning sem stendur út júlí og er öllum opin á afgreiðslutíma bókasafnsins Garðatorgi 7.
Katrín stillir hér upp nýlegum verkum sem hún hefur unnið á vinnustofu sinni á Garðatorgi. Á sýningunni er m.a. að líta, Bjargvættinn ásamt myndaseríunni Augnablikum í alheiminum auk nokkurra annarra verka. Bjargvætturinn er margslungið listaverk með vísan í mynd eftir Leonardo da Vinci. Þar leikur Katrín í gamni og alvöru með hugsunina um frelsara heimsins á okkar dögum þegar ýmsar vár steðja að.
Augnablik í alheiminum hefur sterka vísan til jarðvistar mannkyns og minnir á ábyrgð okkar, ekki síst nú á dögum þar sem við göngum á auðlindirnar af græðgi og án tillits til þeirra sem erfa þær eftir okkur dag. Jörðin er aðeins agnarsmátt sandkorn í viðáttu alheimsins en þó okkar eina athvarf. Hver bjargar okkur í dag?
Katrín telst fígúrutífur listamaður og portrettmálari á listamannsrófinu en hefur þó reynt sig við ýmsar listaðferðir. Verk hennar hafa oft pólitíska skírskotun, þar sem loftslagsbreytingar, flóttafólk og misskipting auðs og gæða eru áberandi. Katrín hefur einnig myndskreytt tvær barnabækur, aðra eftir vinkonu sína, Helgu Sv. Helgadóttur (Húsið á heimsenda) – hina eftir Wolfram Eicke (Ævintýrið um litla Dag) í þýðingu eiginmanns síns, Pálma Ragnars Péturssonar.
Verkin eru til sölu – áhugasamir geta sent tölvupóst til Katrínar: katrinmattth@gmail.com
Til baka
English
Hafðu samband