Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Garðar Jökulsson er listamaður septembermánaðar í bókasafninu á Garðatorgi

07.09.2019
Garðar Jökulsson er listamaður septembermánaðar í bókasafninu á Garðatorgi

Garðar Jökulsson er listamaður septembermánaðar

Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og Grósku. Garðar Jökulsson er listamaður mánaðarins í september. Garðar málar aðallega landslagsmyndir. Þær myndir sem eru á þessari sýningu eru málaðar á árunum 2018-2019 og eru til sölu.

Ágrip

Garðar er fæddur árið 1935 í Reykjavík og hefur alla tíð búið á höfuðborgarsvæðinu. Áhugi hans á myndlist, sér í lagi landslagsmálverkinu, vaknaði snemma. Hann hefur sótt flestar málveraksýningar og fylgst með þróun myndlistar frá því um 1950.
Árið 1982 fór hann sjálfur að mála í frístundum og er sjálfmenntaður í þeim fræðum. Garðar sækir efnisvið í landslag og náttúru Íslands.
Frá árinu 1995 má segja að Garðar hafi helgað sig málverkinu. Hann hélt sína fyrstu sýningu í Blómavali við Sigtún árið 1984 og síðan hefur hann haldið fjölmargar sýningar; í Ásmundarsal, Listhúsinu við Engjateig, Eden í Hveragerði, í verslun ÁTVR í Kringlunni, Domus Medica, Landsbankanum Laugavegi 77 og víðar. Einnig hefur hann sýnt verk sín í Garðabæ, Grindavík, Kópavogi, Hveragerði og fleiri stöðum. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga með Grósku bæði í Gróskusalnum og á Jónsmessunótt í Sjálandi. Garðar hefur að jafnaði haldið tvær stórar sýningar árlega. Honum var, ásamt nokkrum öðrum íslenskum listamönnum, boðið að sýna á ARTEXPO í New York í mars 2007. ARTEXPO er einn af stærri listviðburðum vestanhafs og er haldinn árlega. Garðar hefur tekið þátt í handverkssýningum í Laugardalshöll; handverksmörkuðum og tekið þátt í samsýningum. Að auki hefur hann verið með litlar sýningar á fjölmörgum vinnustöðum, stofnunum og stórmörkuðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Garðar var með sýningu í Hótel Smáratúni upp úr aldamótum og keypti hótelið sýninguna í kjölfarið. Einnig er elsti hlutinn á Hótel Eldhestum skreytt með um það bil 30 myndum eftir Garðar.
Eins og sjá má af þessari upptalningu sýnir Garðar málverk sín oft á óhefðbundnum sýningarstöðum þar sem almenningur gengur um garð, enda segir hann:
„Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, að eigi fólk að njóta þess sem verið er að gera í listum, sé betra að fara með listina að fólkinu, ef þess er nokkur kostur.“
Til baka
English
Hafðu samband