Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rúna K. Tetzschner er listamaður mánaðarins - Náttúruhughrif í Bókasafni Garðabæjar

14.12.2021
Rúna K. Tetzschner er listamaður mánaðarins - Náttúruhughrif í Bókasafni Garðabæjar

Rúna K. Tetzschner er listamaður mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar.  Sýningin stendur yfir í desember og er opin á afreiðslutíma bókasafnsins Garðatorgi 7.

Til sýnis eru aðallega olíumálverk á striga með hughrifum frá íhugunarferðum listamannsins um íslenskan töfraskóg sem vex í skjóli hraunsins og má skoða sýninguna sem náttúruhugleiðslu. Hluti hennar er auk þess helgaður fantasíu í litlum tússlitamyndum.
Sýningin stendur allan desember.
Sýningaröðin Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ.
Rúna er formaður Grósku og rekur einnig Gallerý Grástein á Skólavörðustíg 4 ásamt fleiri listamönnum. Hún stundaði nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík í sjö ár og hefur starfað við myndlist síðan 1999. Rúna hefur sýnt víða hér heima en þó meira erlendis og þá einkum í Danmörku.
Rúna er auk þess rithöfundur sem hefur sent frá sér ljóðabækur, barnabækur og fræðibækur. Hún starfar jafnhliða við listir og fræði, er með B.A.-próf í íslensku og M.A. nám í norrænni trú og hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands.
Rúna hefur unnið við minjavörslu og menningarmiðlun í áratugi, meðal annars á Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskalasafni Íslands. Jafnhliða listinni starfar hún nú við fornleifaskráningu, fornleifarannsóknir og menningarmiðlun hjá fyrirtækinu Antikva ehf. Hvort sem hún fæst við listir eða fræði er Rúna þó fyrst og fremst skapandi einstaklingur.
Til baka
English
Hafðu samband