Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sumarbókaspjall 7.júní á Garðatorgi

03.06.2022
Sumarbókaspjall 7.júní á Garðatorgi

Þrír nýir höfundar sem gáfu út í vor – og sumarútgáfunni mæta á Bókasafn Garðabæjar og spjalla og lesa upp úr bókum sínum þriðjudaginn 7. Júní kl. 17:30.

Öll hjartanlega velkomin, heitt á könnunni.

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir bar sigur úr býtum í handritakeppni Forlagsins, Nýjar raddir. Skáldsaga hennar Getnaður kom út núna nýlega en hún inniheldur hispurslausar og bráðfyndnar ástarsögur um þrítugt fólk í Reykjavík sem fléttast saman á óvæntan hátt. Djammið dunar, en fullorðinsspressan fer sívaxandi.

Rebekka Sif Stefánsdóttir sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Flot, í apríl á þessu ári. Þar tekst hún á við andlega erfiðleika persónunnar Fjólu á nístandi hátt. Þegar Fjóla byrjar að stunda flot að ráði sálfræðings á hún ekki von á því að enda sem starfsmaður hjá Reykjavík Float. Flotið verður miðpunkturinn í lífi hennar, rétt áður en það byrjar hægt og rólega að liðast í sundur. Vandamálin byrja að fljóta upp úr djúpinu og raunveruleikaskynjunin fer úr skorðum.
Díana Sjöfn Jóhannsdóttir gaf út sitt þriðja skáldverk, ljóðabókina Mamma þarf að sofa, í maí. Mamma þarf að sofa er þrískipt, nostalgísk úrvinnsla á sorg og söknuði, ást, minningum og móðurhlutverkinu. Ljóðverkið er áhrifamikið en stíllinn einkennist af hversdagslegum töfrum. Verkið er persónulegt, hjúpað stjörnum og vögguvísum, ást, vöfflulykt og efa.
Til baka
English
Hafðu samband