Leshringur 10 ára
09.12.2010
Leshringur bókasafnsins hefur um þessar mundir starfað í 10 ár og er löngu orðinn fastur liður í starfsemi safnsins. Af þessu tilefni var haldin jóla- og afmælishátíð í Garðabergi, nýrri lesstofu bókasafnsins, þar sem m.a. var boðið upp á kaffi og afmælistertu. Markmið leshringsins er að fræðast um rithöfunda, verk þeirra og stefnur og strauma í bókmenntum, hvetja til lesturs og eiga skemmtilegar samræður í góðum hópi. Meðlimir leshringsins í dag eru þrettán talsins og hafa nýjar konur bæst við á hverju ári en fjórar hafa verið meðlimir frá upphafi, þær Alda Pétursdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir, Margrét Þorvaldsdóttir og Sólveig Geirsdóttir. Leshringurinn starfar frá september til maí og lýkur vetrarstarfinu venjulega með vorferð, þar sem farið er í skoðunarferð á áhugaverð söfn eða sýningar. Allir eru velkomnir í leshringinn.