Jólaleiksýning, upplestur og söngur í Bókasafni Garðabæjar
08.12.2015
Mikið fjölmenni var í Bókasafni Garðabæjar, Garðatorgi, síðastliðinn laugardag, en þá sýndi Möguleikhúsið hið bráðskemmtilega jólaleikrit Hvar er Stekkjarstaur? Margir stöldruðu síðan við og skoðuðu nýjar bækur og tímarit eða föndruðu jólakort og jólapoka, en alla laugardaga fram að jólum er jólaföndur, jólamyndir til að lita, kaffi og piparkökur á borðum í barnadeild. Næsta laugardag 12.desember kl.11:30 mun Ómar R. Valdimarsson lesa upp úr nýrri bók sinni 13 skrýtnir jólasveinar og laugardaginn 19.desember kl.11:30 mun Þóranna Gunný Gunnarsdóttir, sem er útskrifuð af leiklistarbraut FG, lesa jólasögu og syngja og spila nokkur jólalög fyrir börnin. Verið velkomin í notalega fjölskyldustund í bókasafninu.