Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sumarlestur barna

24.05.2016
Sumarlestur barna Nú er erindaröð um garðinn lokið.
Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur hjá Garðyrkjufélagi Íslands heimsótti Bókasafn Garðabæjar laugardaginn 14. maí og hélt erindi um garðrækt og vorverkin í garðinum. Áheyrendur fengu fræðslu um allt milli himins og jarðar, meðal annars þekjuplöntur, mosaeyðingu og hvernig er best að finna upplýsingar um garðrækt. Má segja að þeir hafi fengið gott veganesti þar sem megin áherslan var á að rækta garðinn á lífrænan hátt og forðast eiturefni, en einnig var kynning á notkun eiturefna og hættunni sem þeim fylgir.
Áður höfðu Erla Bil umhverfisstjóri, Linda garðyrkjufræðingur og Smári garðyrkjustjóri frá Garðabæ komið í þrjú skipti og frætt gesti safnsins um garðumhirðu, vorverkin og umhverfi í Garðabæ.
Að venju mun bókasafnið standa fyrir Sumarlestri, sem hefst 10. júní, en það er lestrarhvetjandi verkefni fyrir grunnskólabörn sem stuðlar að því að þau viðhaldi lestrarkunnáttu sinni yfir sumartímann og komi vel undirbúin í skólann í haust. Öll börn eru hvött til að vera með og nýta sér hinn fjölbreytta bókakost sem safnið hefur upp á að bjóða, ekki síst meðan skólabókasöfnin eru lokuð. Dreginn verður út lestrarhestur vikunnar og fær hann bók í verðlaun og 18.ágúst verður haldin skemmtileg lokahátíð þar sem allir virkir þátttakendur munu fá glaðning fyrir lestrardugnaðinn.
Í sumar verður bókasafnið á Garðatorgi opið alla virka daga á milli klukkan 09:00 og 19:00 en lokað á laugardögum. Álftanessafn verður opið mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga á milli klukkan 16:00 og 19:00, föstudaga á milli klukkan 16:00 og 18:00 en lokað á miðvikudögum frá 15. júní til 15. ágúst.
Til baka
English
Hafðu samband