Ótta er listamaður febrúarmánaðar á bókasafninu
06.02.2017
Ósk Laufey Breiðfjörð kölluð Ótta er listamaður febrúarmánaðar. Sýningin stendur yfir allan febrúar og verður formleg opnun föstudaginn 3. febrúar kl 18:00 á Safnanótt. Allir velkomnir. Ótta greindist með MS sjúkdóminn árið 2006 og eftir að hafa náð tökum á sjúkdómnum hóf hún aftur að skapa og hefur síðustu ár einbeitt sér að myndlist og hönnun. Ótta stundaði nám í hönnun við Tækniskólann. Hún hefur setið ýmis námskeið og hefur verið með hugann við listsköpun frá unga aldri. Ótta er góður teiknari og hafa teikningarnar yfirleitt svolítið súrrealískt yfirbragð. Olíumálun hefur verið hennar aðalsvið en hún á það til að ganga aðeins lengra með verkin sín og útfæra þau á ýmsa vegu. Þessi sýning inniheldur áframhaldandi vinnu með Ísland sem mótíf. Verkin eru að þessu sinni útfærð í plexígler, kerti og lítil málverk öll með sama mótífinu en í mismunandi litum og áferð. Ótta er félagsmaður í Grósku Myndlistarfélagi Garðabæjar.