Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Rafbokasafnid.is opnar fyrir viðskiptavini Bókasafns Garðabæjar

31.05.2017
Rafbokasafnid.is opnar fyrir viðskiptavini Bókasafns Garðabæjar

Bókasafn Garðabæjar hefur útlán á raf- og hljóðbókum

Bókasafn Garðabæjar ásamt Bókasafni Hafnarfjarðar og Bókasafni Kópavogs hefja útlán raf- og hljóðbóka í samvinnu við Landskerfi bókasafna fimmtudaginn 1. júní. Með þessari nýjung geta viðskiptavinir bókasafnanna nálgast fjölda titla hljóð- og rafbóka á auðveldari hátt en hingað til. Fyrst um sinn verður safnkostur einkum á ensku en vonast er til þess að íslenskir titlar bætist fljótlega við.

Fyrsta útlán viðskiptavinar Bókasafns Garðabæjar

Fyrsta útlán viðskiptavinar Bókasafns Garðabæjar úr Rafbókasafninu fór fram snemma í morgun (fimmtudaginn 1. júní) upp á Bæjarskrifstofu þar sem bæjarstjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson tók bók að láni. Fyrir valinu var ljóðabókin Óður einyrkjans eftir Stefán frá Hvítadal.

Einn af kostum Rafbókasafnsins er að það er hægt að taka bækur að láni þar sem nettenging er. Ekki þarf að vera nettengdur eftir að bók hefur verið tekin að láni. Það er hægt að hlaða bókum niður á tækið til að geta lesið eða hlustað hvar sem er út útlánstímann.

Rafbókasafnið er opið fyrir viðskiptavini bókasafnsins


Til að nálgast efni Rafbókasafnsins þarf gilt bókasafnsskírteini hjá Bókasafni Garðabæjar eða áður töldum söfnum. Fjölmargir efnisflokkar standa viðskiptavinum til boða, líkt og í hefðbundnu bókasafni. Þar er að finna spennusögur, ævisögur, efni fyrir börn og margt fleira þannig að allir ættu að finna þar eitthvað við sitt hæfi. Viðskiptavinir geta jafnframt sent innkaupabeiðnir en ítarlegar leiðbeiningar um Rafbókasafnið er að finna á heimasíðu bókasafnsins, bokasafn.gardabaer.is.
Hægt verður að nálgast efnið í flestum tækjum svo sem í vafra í tölvum, spjaldtölvum og snjallsímum. Auk þess er efnið jafnframt aðgengilegt í gegnum sérstakt app, OverDrive sem finna má í App Store og Play Store.
Þjónustan er veitt í gegnum OverDrive rafbókaveituna og er gjaldfrjáls fyrir viðskiptavini sem eiga bókasafnsskírteini í Bókasafni Garðabæjar. Slóðin að Rafbókasafninu er rafbokasafnid.is .
Einnig má finna efni Rafbókasafnsins á leitir.is
Borgarbókasafnið hóf rafbókaútlán í byrjun ársins og nú bætast 13 almenningsbókasöfn við. Verkefnið hefur fengið heitið Rafbókasafnið. Landskerfið er ábyrgt fyrir kerfislegum þáttum verkefnisins.


Nánari upplýsingar á Bókasafni Garðabæjar.
Til baka
English
Hafðu samband