Rúna K. Tetzschner listamaður mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar
01.08.2017
Umbreytingarorka og andleg tengsl
Rúna K. Tetzschner listamaður mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar
Rúna K. Tetzschner er listamaður ágústmánaðar á Bókasafni Garðabæjar. Rúna sýnir litlar glitrandi tússlitamyndir og þaralistaverk. Myndir Rúnu túlka margvíslega umbreytingarorku náttúrunnar og andleg tengsl á mörkum fantasíu sem má kenna við töfraraunsæi. Þær fela einnig í sér jákvæð skilaboð og má nota þær til íhugunar og skapandi ímyndunar.
Myndirnar eru unnar á pappír með vatnstússlitum og sérstakri aðferð Rúnu þar sem hún bræðir glitrandi duftliti á pappírinn með hitatæki.
Á sýningunni eru einnig þaraskreytingar á rekavið þar sem er unnið með gjafir hafsins.
Rúna er í stjórn Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ og starfar jafnhliða við listir og fræði. Hún á að baki sjö ára nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík en er auk þess með B.A.-próf í íslensku og M.A.-nám í norrænni trú frá Háskóla Íslands.
Rúna hefur sýnt víða hér heima en þó meira erlendis og þá einkum í Danmörku. Hún er auk þess rithöfundur sem hefur sent frá sér ljóðabækur, barnabækur og fræðibækur. Innan fræðageirans hefur Rúna unnið á ýmsum söfnum og var lengst af á Þjóðminjasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands. Nú er hún safnvörður í Króki í Garðahverfi í Garðabæ og skrifstofustjóri Sögufélagsins.
Rúna verður með móttöku á Bókasafni Garðabæjar undir lok sýningarinnar og verður það auglýst nánar síðar.
Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni milli Bókasafns Garðabæjar og Grósku.
www.facebook.com/art.sparkles
www.ljósájörð.is