Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Kamma er listamaður septembermánaðar á Bókasafni Garðbæjar

04.09.2017
Kamma er listamaður septembermánaðar á Bókasafni Garðbæjar

Ylur og birta úr listasmiðju Kömmu
Kamma Níelsdóttir Dalsgaard er listamaður septembermánaðar á Bókasafni Garðabæjar. Kamma sýnir að þessu sinni þæfð ullarverk ásamt glerlist. Töskur, sjöl, hattar, skór, skálar og fleira: Fallegir gripir og flíkur færa okkur yl og birtu úr listasmiðju hinnar fjölhæfu Kömmu. Um er að ræða vandað íslenskt listhandverk þar sem meðal annars er notast við þjóðlegan efnivið eins og íslenska ull, fiskroð og mosa og innblásturinn er oft sóttur til íslenskrar náttúru.
Kamma ólst upp í Danmörku þar sem náttúran er mildari en hér en fluttist ung að árum til Íslands og hefur búið hér í 52 ár. Land elds og ísa og stórbrotin náttúra þess á því sterkari ítök í henni og kemur það meðal annars fram í listsköpun hennar.
Kamma er í Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ, og hefur unnið markvisst að hönnun og listsköpun frá árinu 2007. Hún hefur þó alla tíð verið listræn en helgaði áður líf sitt skapandi starfi með börnum. Kamma er leikskólakennari að mennt og starfaði á ýmsum leikskólum í Kaupmannahöfn og Garðabæ. Margir muna einnig eftir hinum vinsæla "Kömmuskóla", listasmiðju þar sem Kamma leitaðist við að örva börn til listrænnar og sjálfstæðrar sköpunar.

Kamma verður með sýningaropnun þriðjudaginn 19. september kl. 17:15. Kaffi og veitingar í boði og allir velkomnir.
Kamma verður með móttöku á Bókasafni Garðabæjar síðar í mánuðinum.
Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni milli Bókasafns Garðabæjar og Grósku.
www.facebook.com/art.sparkles

Til baka
English
Hafðu samband