Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Töfraferðir um náttúru - Rúna K. Tetzschner listamaður er á staðnum 29.ágúst kl.13-15

24.08.2020
Töfraferðir um náttúru - Rúna K. Tetzschner listamaður er á staðnum 29.ágúst kl.13-15

Rúna K. Tetzschner er listamaður ágústmánaðar á Bókasafni Garðabæjar - Rúna spjallar við gesti og gangandi laugardaginn 29.ágúst klukkan 13-15

Rúna gengur daglega um töfraheima íslenskrar náttúru og veitir sýningin innsýn í hughrif frá gönguferðunum. Göngurnar eru ævintýri og andlegar íhugunarferðir og áhrifin skila sér stundum í listrænni sköpun. Meðal viðfangsefna núna eru hamraklettar og hraun, þéttgróin blikandi mosa, lyngi, birkikjarri og litríkum smáblómum: Venjulegt landslag á Íslandi sem er þó með því fegursta sem hægt er að hugsa sér. Að undanförnu hefur sköpunarþörf Rúnu einkum fengið útrás í olíumálverkum á striga og á sýningunni getur að líta nokkur sýnishorn af þeim.

Rúna hefur alltaf haft mikla sköpunarþörf og í hennar augum skiptir ekki öllu máli hvaða tjáningarform sköpunin fær. Mismunandi sköpunarform henta mismunandi aðstæðum. Samkvæmt eigin skilningi er hún fyrst og fremst skapandi einstaklingur hvort sem hún fæst við listir, fræði eða eitthvað annað.

Rúna er í stjórn Grósku, samtökum myndlistarmanna í Garðabæ og starfar jafnhliða við listir og fræði. Hún á að baki sjö ára nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík og hefur starfað við myndlist síðan 1999. Lengi vel sérhæfði hún sig einkum í skrautritun og skreytilist og þróaði sérstaka blandaða tækni við gerð tússlitamynda sem margir hafa notið í formi smámynda. Síðustu árin hefur Rúna hins vegar aðallega einbeitt sér að olíumálverkum. Rúna hefur sýnt víða hér heima en þó meira erlendis og þá einkum í Danmörku. Hún er auk þess rithöfundur sem hefur sent frá sér ljóðabækur, barnabækur og fræðibækur.

Rúna er með B.A.-próf í íslensku og M.A.-nám í norrænni trú frá Háskóla Íslands. Hún hefur unnið mikið við minjavörslu og menningarmiðlun, t.d. á Þjóðminjasafni Íslands. Hún starfar nú við fornleifaskráningu hjá fyrirtækinu Antikvu og er jafnframt safnvörður í Króki í Garðahverfi í Garðabæ.

Munum að sjálfsögðu virða fjöldatakmarkanir, sóttvarnir og fjarlægð milli fullorðinna gesta. Verið velkomin.
Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og Grósku.
Til baka
English
Hafðu samband