Vampírur, vesen og annað tilfallandi - upplestur í streymi á Facebook Bókasafns Garðabæjar
Rut Guðnadótti, handhafi Íslensku barnabókaverðlaunanna 2020 les úr bókinni, Vampírur, vesen og annað tilfallandi, í streymi frá Bókasafni Garðabæjar laugardaginn 21.nóv. klukkan 13
Þegar furðuleg veikindi (nei, alveg pottþétt ekki Covid-19) fara að breiðast um skólann ákveða vinkonurnar Milla, Rakel og Lilja að gera eitthvað í málunum. Ekki er hægt að biðja fullorðna fólkið um hjálp, það er gagnslaust, og hver myndi svo sem trúa þremur þrettán ára stelpum sem halda því fram að stærðfræðikennarinn þeirra sé vampíra? Ófyrirsjáanleg lögbrot, vinslit og misgáfulegar málfræðireglur flækjast svo fyrir tilraunum stelpnanna til að komast að því hvort nokkuð yfirnáttúrulegt sé yfirhöfuð á kreiki.
Höfundurinn, Rut Guðnadóttir, elskar uppistand, múmínálfana og að horfa á sömu sjónvarpsseríurnar aftur og aftur. Rut er ekki góð í stærðfræði, er skíthrædd við uppvakninga (en ekki geimverur) og hún er með mjólkuróþol. Rut finnst óþægilegt að skrifa um sjálfa sig í þriðju persónu. Hún hefur áður skrifað pistla og smásögur en Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyrsta skáldsaga hennar. Rut vonar að þú lesir hana.