Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Listamaður mánaðarins í janúar

15.01.2023
Listamaður mánaðarins í janúar

Listamenn mánaðarins á Bókasafni Garðabæjar eru að þessu sinni fimm kvenskörungar úr stjórn Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ. Þær Louise le Roux, María Manda, Erna Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Rúna K. Tetzschner

Þær leggja allar til myndir og má á þessari fjölbreyttu sýningu sjá olíumálverk, akrýlmálverk og vatnslitaverk, fígúratív jafnt sem abstrakt.
Í verkum Louise eru glaðlegar sprengingar og litríkt skraut sem vekur hugrenningar um áramót og veisluhöld og í verki Ernu fer fjölskyldan saman út í lífið í vetrarsnjónum. Verkið Vorgola eftir Margréti gefur blíðleg fyrirheit og minnir á að veturinn tekur enda. Rúna túlkar í verkum sínum íslenskt hraun í ýmsum myndum, bæði glóandi eldgos og storknaða hraunkletta sem gefa fjölskrúðugum villigróðri skjól. Loks segir verk Maríu Möndu svolitla sögu um hvað litlir sem stórir geta orðið þreyttir og vart beðið eftir að strætó komi og flytji þau heim eftir langan og skemmtilegan hátíðardag.
Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og Grósku þar sem einn myndlistarmaður frá félaginu sýnir í hverjum mánuði. Framundan er skemmtileg sýningaröð árið 2023.
Til baka
English
Hafðu samband