Jólabókaspjall Bókasafns Garðabæjar, Garðatorgi fimmtudaginn 23.nóvember kl. 20
17.11.2023
Hið árlega jólabókaspjall á Garðatorgi verður fimmtudaginn 23. nóvember kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19.30.Rithöfundar ársins eru þau Skúli Sigurðsson, Tómas R. Einarsson, Vilborg Davíðsdóttir og Þórdís Gísladóttir. Brynhildur Björnsdóttir stýrir spjallinu.
Umræður, léttar veitingar, huggulegheit og jólaljós.
Skúli Sigurðsson hlaut glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir fyrstu skáldsögu sína, Stóra bróður. Nú fylgir hann frumraun sinni eftir með bókinni Maðurinn frá São Paulo sem fjallar um njósnir og nasista á flótta.
Tónlistarmaðurinn og þýðandinn Tómas R. Einarsson kemur með endurminningabók sína Gangandi bassi í farteskinu. Þar segir hann sögur af samferðafólki, af hlýju og húmor, sem beinist ekki síst að honum sjálfum, deilir með lesanda gleði og sorgum í lífi sínu og kyndir undir dynjandi sveiflu.
Vilborg Davíðsdóttir fer með viðstadda í ævintýraför á slóðir víkinga í Austur-Evrópu þegar hún les upp úr bók sinni Land næturinnar,
seinna bindi sögu hennar um Þorgerði Þorsteinsdóttur sem getið er í Laxdælu.
Þórdís Gísladóttir mætir með smásagnasafnið Aksturslag innfæddra sem hefur að geyma sjö sögur sprottnar úr raunveruleikanum. Atburðir sagnanna gætu virst hversdagslegir og smávægilegir við fyrstu sýn en endurspegla stærri og flóknari hliðar tilverunnar.
Verið öll hjartanlega velkomin 💚